Reglugerðir Hjálparsveitar skáta í Kópavogi

Reglugerð um almennt starf sveitarinnar

  1. Eftirfarandi reglur gilda um almennt starf HSSK og einstakra flokka sveitarinnar, eftir því sem við á, þar með talið æfingar, æfingaferðir, leiðangra og námskeið. Með almennu starfi er átt við alla liði á starfsáætlun HSSK, útköll, fjáraflanir og aðra liði sem félagar sveitarinnar eru boðaðir til.

  2. Formenn flokka sjá til þess að reglugerð viðkomandi flokks sé fullnægt. Þeir skulu einnig annast mannahald flokksins og röðun á lista en þó ávallt leggja allar breytingar fyrir stjórn til samþykktar. Formenn flokka skulu kappkosta að fylgjast með þjálfun og kunnáttu flokksfélaga enda sjá þeir um og bera ábyrgð á boðun sinna manna í útkalli skv. starfsskipulagi við útköll. Formaður flokks ber einnig ábyrgð á störfum flokksins og búnaði þeim sem hann annast, gagnvart sveitinni og stjórn hennar. Formenn flokka sitja í Sveitarráði.

  3. Sá aðili, sem ábyrgur er fyrir viðkomandi starfslið skv. starfsáætlun skipar stjórnanda (fararstjóra).

  4. Stjórnandi/fararstjóri skal:

    a. Kanna þátttöku fyrirfram.
    b. Hafa samráð við formenn tækjaflokka um farartæki.
    c. Útvega húsnæði ef þörf er á.
    d. Skilja eftir lista yfir þátttakendur.
    e. Skrá þann búnað sem farið er með og sjá til þess að hann skili sér allur til baka.
    f. Fá samþykki stjórnar fyrir ferðum og æfingum utan starfsáætlunar.

  5. Fullgildir félagar geta sótt um styrk úr sveitarsjóði til að sækja námskeið eða fara í þjálfunarferðir. Umsækjendur skulu gera grein fyrir tilgangi og markmiðum ferðarinnar/námskeiðs og skila inn kostnaðaráætlun. Við mat á umsóknum skal stjórn hafa til hliðsjónar gagnsemi umræddrar ferðar/námskeiðs fyrir sveitina og störf umsækjenda í hennar þágu.

Reglugerð Sveitarráðs

  1. Sveitarráð skal starfa innan Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Í sveitarráði eiga sæti formenn allra starfandi flokka sveitarinnar, fulltrúar úr stjórn, nýliðaþjálfarar og starfsáætlunarnefnd. Formaður sveitarráðs kemur frá stjórn og skal hann boða fundi þess og stjórna þeim. Sveitarráð er ráðgefandi fyrir stjórn um allt sem við kemur innra starfi sveitarinnar og flokkanna. Formenn flokka skulu reglulega skýra frá starfi og áætlunum síns flokks. Sveitarráð skiptir með sér verkum og ber ábyrgð á framkvæmd starfsáætlunar sveitarinnar.

  3. Drög að starfsáætlun HSSK fyrir 12 mánaða tímabil skal liggja fyrir í lok maí ár hvert. Endanleg starfsáætlun skal svo liggja fyrir á fyrsta sveitarfundi í september ár hvert. Bæði drög og endanlega áætlun skal leggja fyrir stjórn til samþykktar.

  4. Sveitarráði ber að fylgja starfsáætlun eftir með því að útvega nauðsynlegar gistingar og námskeiðssali, fararstjóra, leiðbeinendur og svo framvegis.

  5. Leitast skal við að fá fararstjóra til að taka að sér ferðir með góðum fyrirvara og hvetja til þess að ferðir séu vel auglýstar til dæmis á vefsíðu HSSK, með tölvupósti, auglýsingum í skemmu og með boðunarkerfi sveitarinnar.

  6. Fulltrúi sveitarráðs kynnir starfsáætlun komandi mánaðar á hverjum sveitarfundi og skal þá liggja fyrir hverjir eru ábyrgir fyrir hverjum lið á dagskrá. Leitast skal við að fá viðkomandi aðila til að kynna dagskrárliði á fundinum.

  7. Sveitarráði ber að sjá til þess að haldin sé útkallsæfing fyrir alla sveitina á hverju hausti. Eftir æfinguna skal taka saman lærdómspunkta sem ætlað er að bæta það sem aflaga fór.

  8. Sveitarráð skal fylgjast með námskeiðsframboði hjá Björgunarskólanum og víðar og leitast við að hvetja félaga sveitarinnar til þátttöku í þeim sem þurfa þykir hverju sinni.

  9. Reglulega skal fá fyrirlesara á ýmsum sviðum björgunarstarfa til að halda fyrirlestra fyrir félaga HSSK. Auglýsa þarf viðburðina vel og með góðum fyrirvara.

Reglugerð Afturganga

  1. Afturgöngur er flokkur eldri félaga Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Þeir einir geta óskað eftir inngöngu sem eru fullgildir félagar Hjálparsveitar skáta Kópavogi og hafa starfað um árabil með sveitinni.

  3. Hlutverk flokksins er að halda utan um eldri félaga sveitarinnar sem hafa áhuga á að vera í tengslum við HSSK. Hlúa að þeim og hvetja til áframhaldandi dáða. Markmiðið er að halda uppi skemmtilegri starfsáætlun og hafa gagn og gaman af.

  4. Fastir liðir á starfsáætlun flokksins skulu að jafnaði vera:

    a. Ein hæfilega krefjandi ferð fyrir félaga flokksins, t.d. A-B ferð
    b. Eitt fræðslu- eða skemmtikvöld á ári sem er opið fyrir alla sveitarfélaga og maka
    c. Ein ferð á ári sem er opin fyrir alla félaga sveitarinnar, t.d. haustferð
    d. Ein makaferð á ári sem er opin fyrir alla félaga sveitarinnar og maka
    e. Umsjón með morgunkaffi að morgni 31. desember

  5. Flokkurinn hefur að markmiði að halda úti ómældu starfi innan flokksins allt eftir áhuga og tíðarfari.

  6. Starf flokksins fellur að öðru leyti undir lög HSSK og reglugerð um almennt starf sveitarinnar.

Reglugerð Bátaflokks

  1. Bátaflokkur skal starfa innan Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Bátaflokkur hefur umsjón með bátum sveitarinnar og þeim áhöldum og tækjum sem þeim fylgja.

  3. Formaður bátaflokks ber ábyrgð á að bátarnir sé ávallt til reiðu fyrirvaralaust.

  4. Bátaflokkur sér um að gengið sé vel um báta og aðstöðu bátaflokks.

  5. Bátaflokkur skal sjá til þess að sveitarfélagar séu í sem bestri þjálfun í meðferð bátanna.

  6. Hafa skal samráð við formann bátaflokks eða stjórn ef óskað er eftir bátnum til notkunar.

  7. Formaður bátaflokks ber ábyrgð á að bátarnir séu ekki notaðir til einkaafnota.

  8. Bátaflokkur heldur:

    a. Skýrslu um notkun bátana.
    b. Skrá yfir tæki flokksins.

  9. Skilja skal eftir orðsendingu þegar farið er á bátum í ferðir og æfingar. Einnig skal formanni bátaflokks ávallt gert viðvart að afloknum æfingum og ferðum á bátunum.

  10. Félagar flokksins skulu vera vel að sér í fyrstu hjálp og meðferð súrefnistækis og viðhalda þeirri kunnáttu með reglulegum æfingum.

  11. Bátaflokkur sér til þess að í bátunum sé ítarlegur listi yfir þann búnað sem í þeim eru.

  12. Ávallt skal vera einn félagi bátaflokks með í öllum æfingum og ferðum á bátunum.

Reglugerð Buggýbílaflokks

  1. Buggýbílaflokkur skal starfa innan Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Buggýbílaflokkur hefur umsjón með Buggýbílum og bílakerru sveitarinnar ásamt búnaði flokksins.

  3. Formaður Buggýbílaflokks ber ábyrgð á að tæki flokksins séu ávallt til reiðu fyrirvaralaust.

  4. Buggýbílaflokkur heldur skrá yfir akstur á tækjum flokksins svo og vinnu við þau.

  5. Buggýbílaflokkur heldur skrá yfir áhöld og tæki í sinni vörslu.

  6. Buggýbílaflokkur sér um að vel sé gengið um umráðasvæði flokksins.

  7. Formaður Buggýbílaflokks ber ábyrgð á að tæki flokksins séu ekki notuð til einkaafnota.

  8. Hafa skal samráð við formann Buggýbílaflokks eða stjórn ef óskað er eftir tækjum til notkunar.

  9. Félagar flokksins skulu vera vel að sér í fyrstu hjálp og leitartækni og viðhalda þeirri kunnáttu með reglulegum æfingum.

  10. Enginn má aka Buggý bílum sveitarinnar án þess að vera með gild B ökuréttindi og nota hjálm.

Reglugerð Leitarflokks

  1. Leitarflokkur skal starfa innan Hjálparsveitar Skáta í Kópavogi.

  2. Formaður leitarflokks er ábyrgur fyrir þjálfun og fleiru innan flokksins. Eftirtalin atriði teljast til hlutverks formanns:

    a. Fylgjast með getu, þekkingu og þjálfun einstaklinga innan flokksins. Hann skal einnig flytja einstaklinga til á útkallslistanum telji hann ástæðu til þess og gera tillögu að nýjum mönnum á útkallslista.
    b. Formanni flokksins er heimilt að skipa sérstaka hópa innan leitarflokks í samráði við stjórn.

  3. Félagar leitarflokks skulu viðhalda þekkingu sinni á öllum þeim sviðum sem tengjast almennu hjálparsveitarstarfi s.s. rötun, fyrstu hjálp, fjallamennsku o.s.frv. Öllum þeim sem ætla sér að starfa í flokknum skal vera skylt að sækja námskeið eða sýna fram á þekkingu sína á annan fullnægjandi hátt að mati formanns flokksins.

  4. Félagar leitarflokks skulu kappkosta að vera jafnan í sem bestri líkamlegri þjálfun og æfa reglulega.

  5. Félagar skulu eiga og hafa tiltækan allan almennan búnað til fjallaferða að vetrarlagi. Einnig skal ávallt vera með nesti til eins sólarhrings þegar mætt er í útkall.

  6. Leitarflokkur hefur umsjón með öllum áhöldum og tækjum sveitarinnar sem ekki eru í vörslu annarra flokka.

  7. Flokkurinn ber ábyrgð á því að öll áhöld og tæki í vörslu hans séu ávallt í besta lagi og tilbúin til notkunar fyrirvaralaust.

  8. Formaður leitarflokks ber ábyrgð á að áhöld og tæki í vörslu hans sé ekki notaður til einkaafnota.

  9. Leitarflokkur heldur skrá yfir öll áhöld og tæki í vörslu flokksins.

Reglugerð Nýliðaflokks

  1. Nýliðaflokkur skal starfa innan Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Stjórn skipar 2 nýliðaþjálfara.

  3. Nýliðaþjálfarar eru megintengiliðir við nýliðahóp.

  4. Inntaka nýliða skal að öllu jöfnu vera í ágúst-september ár hvert.

  5. Umsækjendur í nýliðaflokk skulu vera 18 ára á því ári sem þeir sækja um inngöngu.

  6. Halda skal reglulega fundi (að minnsta kosta tvisvar á ári) með nýliðahópnum þar sem farið er yfir stöðu mála, þjálfunarbókina og önnur mál er snerta nýliða og þjálfun þeirra. Einnig skal halda jafnmarga fundi með hverjum nýliða til að fara yfir stöðu mála.

  7. Halda skal stöðupróf fyrir þann nýliðahóp sem sækir um inngöngu í sveitina fyrir aðalfund.

  8. Til að verða fullgildur félagi í HSSK þarf nýliði að uppfylla eftirfarandi:

    a. Hafa uppfyllt þau námskeið og þjálfun sem kveðið er á um í námskrá HSSK.
    b. Vera að öðru leiti hæfur að mati stjórnar til að skrifa undir eiðstaf sveitarinnar.
    c. Hafa starfað með sveitinni í að minnsta kosti tólf mánuði.

  9. Stjórn er heimilt að vísa þeim frá sem ekki stunda almennt starf sveitarinnar mjög vel, sýna ámælisverða framkomu, eða brjóta gegn 9. grein laga HSSK.

  10. Til að gerast fullgildur félagi í HSSK þarf nýliði að sækja skriflega til stjórnar um inngöngu í sveitina.

Reglugerð Rústabjörgunarflokks

  1. Rústabjörgunarflokkur skal starfa innan Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Rústabjörgunarflokkur hefur umsjón með öllum sérhæfðum tækjum og verkfærum sem snúa að rústabjörgun og ber ábyrgð á að því að öll áhöld og tæki í vörslu hans séu ávallt í góðu lagi og tilbúin til notkunar fyrirvaralaust.

  3. Formaður rústabjörgunarflokks ber ábyrgð á að búnaður í vörslu hans sé ekki notaður til einkaafnota.

  4. Rústabjörgunarflokkur heldur skrá yfir áhöld og tæki í sinni vörslu.

  5. Rústabjörgunarflokkur skal að öllu jöfnu vera stjórnunarlega sjálfstæð eining við undirbúning aðgerða og vera þess megnugur að fara í aðgerð á sem skemmstum tíma.

  6. Formaður rústabjörgunarflokks skal vera ábyrgur fyrir þjálfun og fleiru innan flokksins og sjá til þess að sveitin uppfylli sinn hluta samnings við Alþjóðasveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

  7. Þeir einir geta verið á útkallslista rústabjörgunarflokks sem hafa starfað í hjálparsveitinni í minnst 2 ár.

Reglugerð Sjúkraflokks

  1. Sjúkraflokkur skal starfa innan Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Sjúkraflokkur hefur umsjón með öllum áhöldum og tækjum sveitarinnar sem lúta beint að fyrstu hjálp og sjúkraflutningum.

  3. Formaður flokksins ber ábyrgð á því að öll áhöld og tæki hans séu ávallt í lagi og tilbúin til notkunar fyrirvaralaust.

  4. Sjúkraflokkur sér um að vel sé gengið um herbergi sjúkraflokks.

  5. Sjúkraflokkur heldur skrá yfir öll varanleg tæki og áhöld í umsjón hans og hefur eftirlit með notkun og endurnýjun sjúkragagna.

  6. Formaður sjúkraflokks ber ábyrgð á að búnaður í vörslu hans sé ekki notaður til einkaafnota.

  7. Sjúkraflokkur sér um að útvega einstaklingstöskur fyrir sveitarfélaga til kaups. Ef félagar nota gögn úr þessum töskum í útköllum eða æfingum á vegum sveitarinnar geta þeir fengið fyllt á þær sér að kostnaðarlausu.

  8. Sjúkraflokkur sér um að sjúkrabúnaður í öllum tækjum sveitarinnar sé í lagi og yfirfer hann reglulega.

  9. Sjúkraflokkur hefur umsjón með allri fyrstu hjálparkennslu fyrir sveitarfélaga og nýliða.

Reglugerð Sleðaflokks

  1. Sleðaflokkur skal starfa innan Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Sleðaflokkur hefur umsjón með sleðum og sleðakerrum sveitarinnar og búnaði flokksins.

  3. Formaður sleðaflokks ber ábyrgð á að tæki flokksins séu ávallt til reiðu fyrirvaralaust.

  4. Sleðaflokkur heldur skrá yfir akstur á tækjum flokksins svo og vinnu við þau.

  5. Sleðaflokkur heldur skrá yfir áhöld og tæki í sinni vörslu.

  6. Sleðaflokkur sér um að vel sé gengið um umráðasvæði flokksins.

  7. Formaður sleðaflokks ber ábyrgð á að tæki flokksins séu ekki notuð til einkaafnota.

  8. Hafa skal samráð við formann sleðaflokks eða stjórn ef óskað er eftir tækjum til notkunar.

  9. Félagar flokksins skulu vera vel að sér í fyrstu hjálp og leitartækni og viðhalda þeirri kunnáttu með reglulegum æfingum.

  10. Enginn má aka sleðum sveitarinnar án þess að bera öryggisbrynju, snjóflóðaýli og nota hjálm

Reglugerð Tækjaflokks

  1. Tækjaflokkur skal starfa innan Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Tækjaflokkur hefur umsjón með bílum og snjóbílum sveitarinnar og þeim áhöldum og tækjum sem þeim fylgja.

  3. Tækjaflokkur ber ábyrgð á því að bílarnir séu ávallt til reiðu fyrirvaralaust.

  4. Flokkurinn skal sjá um að gengið sé vel um bíla og bílageymslu.

  5. Alla vinnu og akstur á að færa í bækur, einnig skal flokkurinn halda skrá yfir tæki í sinni umsjá.

  6. Hafa skal samráð við formann tækjaflokks eða stjórn ef óskað er eftir bílum til notkunar.

  7. Formaður tækjaflokks ber ábyrgð á að bílarnir séu ekki notaðir til einkaafnota.

  8. Stefnt skal að því að tækjaflokksmenn hafi meirapróf.

  9. Félagar flokksins skulu vera vel að sér í fyrstu hjálp og meðferð súrefnistækis og viðhalda þeirri kunnáttu með reglulegum æfingum.

  10. Miðað skal við að hver maður aki ekki lengur en 6 klst. án þess að til komi skipting á akstri og ekki lengur en 12 klst. á sólarhring. Formaður tækjaflokks eða stjórnandi sjá um skiptingu á akstri. Bílstjórar skulu forðast að vera við vöku nóttina fyrir akstur.

  11. Tækjaflokkur sér til þess að í hverjum bíl sé ítarlegur listi yfir þann búnað sem í bílnum er.

Reglugerð Undanfara

  1. Undanfaraflokkur skal starfa innan Hjálparsveitar skáta í Kópavogi.

  2. Allir undanfarar HSSK skulu fullnægja kröfum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar um undanfara. Afrit af kröfum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar skal fylgja með reglum þessum.

  3. Formaður undanfara skal vera fulltrúi flokksins út á við og að öllu jöfnu stjórnandi hans. Hann skal sjá um að skipuleggja séræfingar, fræðslukvöld og almennt starf auk þess að fylgjast með upprennandi einstaklingum. Einnig skal hann ásamt stjórn taka afstöðu til umsókna.

  4. Undanfarar skulu að öllu jöfnu vera stjórnunarlega sjálfstæð eining við undirbúning aðgerða eftir boðun og vera þess megnugir að fara í aðgerð á sem skemmstum tíma.

  5. Hver einstaklingur eða tveir saman skulu hafa ákveðnu hlutverki að gegna við undirbúning aðgerða.

  6. Allir undanfarar skulu hafa skáp í húsnæði sveitarinnar þar sem þeir geta geymt allan sinn búnað. Þar skal allur útbúnaður vera tiltækur þar á meðal matur til eins sólarhrings.

  7. Formaður undanfara ber ábyrgð á að búnaður í vörslu hans sé ekki notaður til einkaafnota.

  8. Verðandi undanfarar skulu starfa með undanförum á æfingum og mæta á fræðslukvöld skv. ákvörðun formanns undanfara áður en þeir teljast fullgildir sem slíkir.

Reglugerð um Viðbragðsteymi HSSK

  1. Viðbragðsteymi skal starfa innan HSSK.
  2. Í viðbragðsteymi sveitarinnar sitja að jafnaði sex einstaklingar hverju sinni.
    • Formaður sveitarinnar, varaformaður og formaður bækistöðvar.
    • Stjórn skipar í hin þrjú sætin.
    • Almennt skal leitast til að skipa einstaklinga með menntun og/eða reynslu sem nýtist í þeim aðstæðum sem teyminu er ætlað að bregðast við. Sem dæmi má nefna heilbrigðis- og/eða sálfræðimenntun.
  3. Tilgangur viðbragðsteymis HSSK er að tryggja fagleg viðbrögð innan HSSK þegar félagar verða fyrir erfiðleikum eða áföllum í starfi sveitarinnar.
    • Tryggja að allir viðeigandi aðilar séu upplýstir um stöðu máls.
    • Tryggja að allir viðeigandi fái þann stuðning sem óskað er eftir og talinn er þurfa.
    • Tryggja almenna upplýsingagjöf til félaga sveitarinnar varðandi atburði sem stjórn eða viðbragðsteymi telur að geti haft áhrif á starf sveitarinnar.
    • Dæmi um atburði sem geta kallað á virkjun viðbragðsteymis
      1. Óeðlileg seinkun á heimferð
      2. Slys á félögum
      3. Björgunarsveitarslys ótengt HSSK
      4. Aðkoma að látnum eða mikið slösuðum einstaklingum
      5. Samskipti við syrgjandi eða erfiða aðstandendur
      6. Leit að félaga eða aðstandanda félaga
      7. Óvæntir atburðir eða áföll sem valdið geta streitu
      8. Hamfarir
      9. Banaslys
      10. Alvarlegur öryggisbrestur í verkefnum á vegum HSSK
  4. Virkjun viðbragðsteymis
    • Almennt er það á ábyrgð fararstjóra, hópstjóra, bækistöðvar eða annarra stjórnenda að virkja viðbragðsteymið. Að öðru leyti geta allir félagar óskað eftir að teymið sé virkjað.
    • Hafa skal samband við formann HSSK eða hans staðgengil. Í fjarveru þeirra skal hafa samband við bækistöð eða starfsmann.
  5. Viðbragðsteymi skal funda að minnsta kosti einu sinni í byrjun hausts og fara yfir hlutverk þess og verkferla.

Reglugerð Þjálfunarráðs

  1. Þjálfunarráð skal starfa innan Hjálparsveitar Skáta í Kópavogi (HSSK)

  2. Hlutverk þjálfunarráðs er að hafa umsjón með allri þjálfun og menntun nýliða og félaga innan HSSK.

  3. Þjálfunarráð fundar að jafnaði einu sinni í mánuði yfir árið. Formaður þjálfunarráðs ákveður fundartíma.

  4. Þjálfunarráð skal eiga tölvupóstfang þar sem hægt er að koma fyrirspurnum til þjálfunarráðs og þjálfunarráð notar til að eiga samskipti sín á milli.

  5. Í Þjálfunarráði sitja hámark tíu aðilar. Nýliðaþjálfarar allra nýliðahópa skulu sitja í þjálfunarráði. Stjórn og formaður þjálfunarráðs skipa í önnur sæti þjálfunarráðs.

  6. Formaður þjálfunarráðs skal vera skipaður af sitjandi stjórn ár hvert. Hann ber ábyrgð á störfum þjálfunarráðs. Formaður er stjórnandi og skal sitja í sveitarráði fyrir hönd þjálfunarráðs.

  7. Þjálfunarráð ber ábyrgð á því að útbúa starfsáætlun og fylgja henni yfir starfsárið. Á áætluninni skulu vera öll námskeið og ferðir starfsárs fyrir alla nýliðahópana og almennar sveitarferðir. Starfsáætlun komandi starfsárs skal bera undir stjórn og sveitarráð í apríl og kynnt á sveitarfundi í maí í lok starfsársins.

  8. Þjálfunarráð skal stefna að því að eiga rammaáætlun fyrir starf HSSK sem gildir í hið minnsta tvö ár fram í tímann.

  9. Þjálfunarráð skipar leiðbeinendur og fararstjóra námskeiða og ferða auk þess að útvega nauðsynlegar gistingar og fyrirlestrarsali og í samvinnu við sveitarráð.

  10. Fulltrúi þjálfunarráðs kynnir starfsáætlun komandi mánaðar á hverjum sveitarfundi og skal þá liggja fyrir hverjir eru ábyrgir fyrir hverjum lið á dagskrá.

  11. Þjálfunarráði ber að sjá til þess að haldin sé útkallsæfing fyrir félaga HSSK á hverju hausti. Eftir æfinguna skal taka saman punkta til þess að draga lærdóm af æfingunni.

  12. Þjálfunarráð skal fylgjast með námskeiðsframboði hjá Björgunarskólanum og víðar og leitast við að hvetja félaga til þátttöku í þeim sem þurfa þykir hverju sinni. Jafnframt að stuðla að því að HSSK eigi alltaf viðurkennda leiðbeinendur á sínum snærum í öllum grunnfögum.

Breytingar á reglugerðum voru síðast samþykktar á aðalfundi sveitarinnar 28. apríl 2023.

Hjálparsveit skáta í Kópavogi